forvarnarferdEinn af föstu punktum vetrarstarfsins er forvarnarferðin okkar. Mörg ár eru síðan fyrst var farið með nemendur inn á afrétt Gnúpverja, í Hólaskóg og fengnir þangað fyrirlesarar af ýmsu tagi. Gist var innfrá og fengnir þekktir tónlistarmenn til að leika á kvöldvöku. Þetta breyttist síðan yfir í að farin er nú dagsferð til Reykjavíkur.
Að þessu sinni var lagt í hann kl. 13.00 frá skólanum á stórri rútu frá Guðmundi Tyrfingssyni sem Pálmi keyrði. Fórum sem leið lá beint í höfuðstöðvar SÁÁ en þar beið okkar ágætur piltur að nafni Óli Örn Atlason. Hann starfar á félagsmiðstöðvum Reykjavíkur og nær afar vel til krakkanna og ræddi við þau um heilbrigð samskipti á netinu og bara almennt. Hvernig þau skilgreindu einelti á samfélagsmiðlum ofl.
Þá var gefið smá hlé en að því loknu kom Karl Gunnarsson og sagði frá starfsemi SÁÁ. Honum var líka þakkað fyrir að við fáum alltaf að koma í þennan fína sal hjá þeim sem skiptir okkur miklu máli. Aftur var tekið hlé og nú fengum þau kex og vatnsglas með.

Lokafyrirlesturinn var í höndum manns frá landlæknisembætti að nafni Viðar Jensson en hann er verkefnisstjóri tóbaksvarna þar á bæ. Hann ræddi um reykingar í víðum skilningi auk þess að fara inn á reyklaust tóbak – munntóbak og neftóbak. Aðeins fór hann svo inn á rafsígaretturnar. Um þær urðu nokkrar umræður í lok fyrirlestrar og má ljóst vera að um þetta eru talsvert skiptar skoðanir. Enda fór Viðar ekki nema mjög lauslega inn á þann málaflokk en svaraði hins vegar fyrirspurnum. Það er ljóst að þetta er mjög gott tæki til að hjálpa þeim sem reykja að hætta því og það hlýtur að vera jákvætt. En hvort það er góð þróun að nokkuð stór hópur íslenskrar æsku er farinn að nota þetta dags daglega er svo annað mál. Ljóst er að þetta hefur mjög lítið verið rannsakað og þó gufan sem slík sé hættulaus að talið er þá vita menn lítið um langtímaáhrif þeirra bragðefna sem sett eru í þetta – og þau eru mörg.

Frá SÁÁ fórum við síðan í Fjallakofann sem hafði boðið okkur 20% afslátt af öllum vörum í búðinni þennan dag og það nýttu sér þó nokkrir. Stór hópur nýnema valdi útivist sem valgrein og þarna var því kjörið tækifæri til að ná sér í þann búnað sem upp á vantar.

Frá Fjallakofa fórum við rakleiðis í Keiluhöllina þar sem búið var að raða öllum á brautir og var það gert til að hrista hópinn enn frekar saman. Við fengum diskókeilu og pitsur komu síðan á brautirnar ásamt gosi þannig að það var mjög góð stemming þarna.

Krakkarnir voru til mikillar fyrirmyndar öll sem eitt í ferðinni og það voru afar ánægð húsfreyja og húsbóndi/forvarnarfulltrúi sem óku þeim í hlað um kvöldið.

Fleiri myndir má sjá hér.

Pálmi Hilmarsson og Erla Þorsteinsdóttir.