Samkomubann hefur verið framlengt til 4. maí og húsnæði skólans verður því áfram lokað, en við höldum okkar striki áfram í fjarvinnu.

Kennarar munu endurskipuleggja enn frekar þær vikur sem eftir eru af kennslu annarinnar.  Vonandi verður samkomubanni aflétt 4. maí og gefst þá stund til að halda í hefðir s.s. bekkjaveislur og dimissio.

  • Sálfræðingur skólans sinnir fjarviðtölum í gegnum hugbúnaðinn Kara Connect.  Póstur um skipulag þess hefur verið sendur nemendum og foreldrum/forráðamönnum.
  • Vænta má niðurstaðna í dag úr könnun skólans sem lögð var fyrir nemendur í vikunni um líðan og námsgengi í fjarvinnu.
  • Verkefnstjóri upplýsingamála sinnir fjarþjónustu og eru nemendur hvattir til að senda tölvupóst á ellajona@ml.is ef þeir þarfnast tæknilegrar aðstoðar.

Mæting er almennt séð mjög góð það sem af er fjarvinnunni og nemendur eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeim hefur tekist að aðlagast nýju umhverfi.

Vænta má að námsmat verði með öðrum hætti að hluta eða öllu leyti í mörgum áföngum en lagt var upp með í upphafi annar og að skipulag námsmatstímans muni breytast.  Kennarar upplýsa nemendur um allar þær breytingar sem verða á yfirferð og námsmati, áætlunum og verkefnaskilum.

  • Nemendur í útivist á fyrsta og öðru ári fá biðeinkunnir þar sem ekki hefur tekist að ljúka við ferðir áfanganna.  Þær verða farnar snemma næsta haust.
  • Á þessari stundu er óljóst hvort lokatónleikar kórsins verði haldnir.

Tímasetningu brautskráningar og skólaslita verður ekki breytt ef það gengur eftir að samkomubann verður ekki lengur en til 4. maí.

Starfsfólk skólans óskar nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska.  Verum heima, – hlýðum Víði!

Halldór Páll Halldórsson, skólameistari