Mikil aukning hefur orðið á útivistaráhuga ML-inga. Í ár eru skráðir 28 nemendur í framhaldsáfanga útivistar sem er tvöföldun miðað við það sem áður var. Vegna þessa aukna fjölda þurfti að tvískipta hópnum þegar farið var í tjaldferð um daginn. Þá ganga nemendur með allan búnað á bakinu að frábærum stað í Skillandsdal þar sem tjöldin eru sett upp. Á svæðinu er lítill hellisskúti með gati í þakinu, þar er kveiktur lítill varðeldur og pylsur grillaðar.

Fyrri hópurinn fór í sína ferð 15. september. Hæglætisveður var á meðan gengið var en þegar að búið var að slá upp tjöldum skall á hellirigning með hávaðaroki. Þegar fara átti á fætur morguninn eftir var eins og hendi væri veifað og veðrið gekk niður.

Seinni hópurinn, sem fór í sína ferð 22. september, fékk allt öðruvísi veður því gengið var í sól og blíðu en köldu veðri. Það var því eins og búist var við að nóttin var mjög köld því hitinn fór niður í -7°c. Eins og gefur að skilja sváfu nemendur misjafnlega í þessum kulda en það er óhætt að segja að þeir hafi staðið sig vel. Ekki skemmdi fyrir að þegar verið var að skríða inn í tjöldin var æðisleg norðurljósasýning.

Nokkrar myndir úr ferðunum eru hér.

Smári Stefánsson, útivistarkennari