Þetta erindi hefur skólameistari sent á foreldra:
Ágætu foreldrar.
Þið hafið væntanlega flest ef ekki öll fylgst vel með umræðum og fréttaflutningi í fjölmiðlum af verkfallsboðun framhaldsskólakennara sem tekur gildi upp úr miðjum mars. Ekki er loku fyrir það skotið að gengið verði til samninga fyrir þann tíma og þá verkfallsboðuninni aflýst. Í ljósi stöðunnar er rétt að nefna eftirfarandi:
- Ómögulegt er að segja til um það fyrirfram hversu langt verkfall verður, ef til þess kemur.
- Það er háð lengd mögulegs verkfalls svo og um hvað semst, s.s. um viðbótarkennsludaga og/eða lengingu skólaársins fram á vorið, til hvaða ráða verður gripið til að ljúka önninni. Framlenging fram á vorið er þó háð takmörkunum hér í ML vegna leigusamnings við Hótel Eddu sem tekur gildi í upphafi júní ár hvert.
- Mikilvægt er að halda vel utan um nemendur, hvetja þá til dáða og til áframhaldandi skóladvalar þrátt fyrir þá röskun sem getur orðið. Hvetja má þá s.s. til þess að læra það námsefni betur sem búið er að fara yfir á önninni og vera með því betur undir prófin búnir í þeim hluta námsefnisins. Eins gætu þeir unnið áfram skv. kennsluáætlunum og verið þá betur undir þátttöku í kennslustundum búnir þegar kennsla hæfist að nýju.
- Undirritaður er ekki í verkfalli ef til þess kemur hjá félögum innan félagsdeilda KÍ, þ.e. hjá FF (Félag framhaldsskólakennara) og FS (Félag stjórnenda í framhaldsskólum), þar sem skólameistarar heyra beint undir kjararáð og hafa ekki verkfallsrétt. Allir aðrir starfsmenn skólans, aðrir en kennarar, námsráðgjafi og aðstoðarskólameistari, verða við störf.
- Foreldrar og nemendur verða upplýstir jafnóðum um það sem skiptir máli með fréttum/tilkynningum á heimasíðu skólans og/eða með tölvupóstsendingum á mögulegum verkfallstíma eftir því sem þörf krefur.
Ef til verkfalls kemur munu nemendur halda herbergjum sínum en þeir munu ekki greiða daggjald í mötuneytinu. Daggjald mögulegra verkfallsdaga verður frádregið eftir á. Mötuneytið verður þó áfram opið í hádeginu þar sem hér er fjöldi starfsmanna í öðrum stéttarfélögum en KÍ, svo sem í SFR, Starfsgreinasambandinu, BHM og fleiri félögum. Verktakar þeir sem starfa við endurnýjun á heimavistarhúsinu Nös borða hér í hádeginu og einnig fjöldi nemenda Íþróttafræðaseturs HÍ. Einnig þjónustar Mötuneyti ML leikskóla og grunnskóla hér á Laugarvatni með hádegismáltíðir. Ef nemendur hyggjast vera í herbergjum sínum á verkfallstíma í skemmri eða lengri tíma þurfa þeir að láta húsbónda vita hverju sinni. Mötuneytið er þeim aðgengilegt í hádeginu og greiða þeir þá lausafæðisgjald.
Að sjálfsögðu ber undirritaður þá von í brjósti að úr rætist og að samið verði í tæka tíð. En staðan er grafalvarleg, ekki eingöngu horft til þessa vetrar heldur og horft til framtíðar. Samfélagið þarf að sammælast um framtíð skólastarfs í framhaldsskólum, sammælast um það hverjar starfsaðstæður og kjör þeirra eiga að vera sem þar starfa og sammælast um mikilvægi framhaldsskólastigsins í íslensku samfélagi.