Nú vonum við að versti kúfurinn í þessari bylgju sé tekinn að hjaðna. Við höldum ótrauð áfram hér við að vinna hvert skipulagið á fætur öðru og gefumst ekki upp við að hugsa upp nýjar lausnir sem henta langþreyttum kennurum og nemendum. Það er nefnilega núna sem fer að reyna á. Það hefur löngum verið þannig í framhaldsskólanum að í kringum miðja önn fer að gefa á bátinn. Um miðbik október er langt liðið á önnina en ennþá langt í land. Haustönnin er líka oft þyngri en vorönnin því myrkrið sígur á og ekkert páskafrí sem skiptir upp önninni. Það er því aldeilis tilefni til að stappa í sig stálinu og búa sig undir að klára önnina með glæsibrag.

Við erum glöð að fá skilaboð frá foreldrum og nemendum þar sem þeir lýsa ánægju sinni með skipulagið í skólanum. Það gleður okkur hér að almennt skynji nemendur að við séum öll að leggja okkur fram um að gera sem best úr þessari stöðu sem nú er uppi. Við hvetjum bæði nemendur og forráðamenn til að hafa samband við okkur og ræða málin. Við erum í sífellu að reyna að finna leiðir sem virka og endalaust að stefna að því að gera gott betra.

Við finnum fyrir auknu álagi og kennarar hafa þurft að endurskipuleggja nokkrum sinnum yfir önnina. Þetta tekur í. Eins hafa nemendur þurft að sitja við tölvur löngum stundum og það er erfitt. Við hvetjum þau að sjálfsögðu til að standa upp og hreyfa sig en höfum ekki tök á því að fylgjast með því að þau geri það. Þar treystum við á foreldra og nærumhverfið. Við erum öll í sama liði og stefnan er að halda eins vel utan um nám og vellíðan nemendanna eins og hægt er. Það vegur þungt í þessu öllu að við vinnum saman. Þeir sem eiga erfitt með að fóta sig í náminu eða líður illa í tengslum við ástandið verða að vera duglegir að hafa samband við okkur. Við erum hér boðin og búin að aðstoða nemendur og viljum frekar fá umræðu um erfiðleika upp á yfirborðið en ekki að hver ræði í sínu horni. Þessi ábending gildir jafnt til forráðamanna sem nemenda. Ég minni sérstaklega á umsjónarkennarana og námsráðgjafann. En öll erum við hér til að styðja við ML-inga.

Með bjartsýni og dug komumst við í gegnum þetta, saman.

Kærar kveðjur,

Jóna Katrín, skólameistari