bett syningDagana 11.-15. janúar var BETT sýningin haldin í London. BETT sýningin er stærsta skólafagsýning Bretlands, og er hugsuð fyrir alla sem koma að skólastarfi, hvort sem það eru kennarar, stjórnendur eða tölvu- og tæknifólk. Stór hópur Íslendinga fór í samstarfi við Nýherja og Úrval Útsýn og frá ML fóru tveir kennarar, Aðalbjörg Bragadóttir og Valgarður Reynisson. Sjálf sýningin er risavaxin, en á henni er að finna tæplega 700 sýningaraðila og sölumenn auk fjölda áhugaverðra fyrirlestra um ýmislegt sem við kemur skólastarfi.  
 Í stuttu máli sagt var þátttaka á sýningunni stórmerkileg upplifun. Hún opnaði augu okkar fyrir ýmsum tækninýjunum í skólastofunni, t.d. sáum við að svokallaðar snjalltöflur eru víða að verða staðalbúnaður í kennslustofum, enda bjóða þær upp á mikla notkunarmöguleika fram yfir hefðbundna skjávarpa. Íslenska fyrirtækið Info Mentor var með flottan bás á sýningunni og heiðraði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, samkomuna og hélt stutt ávarp. Við komum sæl og stórhuga frá ferðinni og hlökkum til að kynna fyrir samstarfsmönnum okkar framtíðina í skólastarfi.
 
Aðalbjörg og Valgarður