Kynjafraedi

Kynjafræðikennarar í framhaldsskólum landsins, þar á meðal undirrituð, hafa myndað með sér gott tengslanet. Nokkrum sinnum hafa þau tekið sig saman um að skipuleggja málþing fyrir nemendur sína. Að þessu sinni var málþingið haldið í tengslum við jafnréttisdaga Háskóla Íslands, í samstarfi við námsbraut í kynjafræði við HÍ. Nemendur í 1F og 1N fóru með rútu á viðburðinn, í Veröld – húsi Vigdísar, þriðjudaginn 17. október. Yfirskrift málþingsins var Kynjajafnrétti í framhaldsskólum Íslands.

Boðið var upp á fjögur erindi. Tveir kennarar úr Menntaskólanum að Laugarvatni voru með erindi; Karen Dögg BryndísarogKarlsdóttur fjallaði um drusluskömm og Freyja Rós Haraldsdóttir ræddi um jafnrétti í félagslífi í framhaldsskólum og hlutverk jafnréttisfulltrúa. Hjálmar Sigmarsson, starfsmaður Stígamóta, talaði um kynferðisofbeldi meðal framhaldsskólanema. Hildur Vala Einarsdóttir, meðlimur í félaginu Kítón – konur í tónlist, ræddi um kynjahallann í skemmtanalífi framhaldsskólanema.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir stýrði pallborðsumræðum í lokin, sem höfðu yfirskriftina „Hvað geta framhaldskólanemar gert til að stuðla að auknu jafnrétti?“. Egill Hermannsson, nemandi í 2N Menntaskólans að Laugarvatni, var í pallborði. Hann var verðugur fulltrúi nemenda í umræðunum.

Það er upplagt að nota þetta tækifæri til að minna á jafnréttisáætlun ML. Jafnréttisnefnd Mímis hefur líka sett sér metnaðarfulla áætlun. Þar verður fundað á næstunni og haldið áfram með gott starf. Það getur verið erfitt að finna tíma til að hittast, en jafnréttismálin eru alltaf ofarlega á baugi hjá okkur.

Myndir frá málþinginu.

Freyja Rós Haraldsdóttir kynjafræðikennari og jafnréttisfulltrúi ML