Síðastliðinn mánudag fengu nemendur í matreiðslu (MAT173) til sín gestakennara, en það var síðasti tími námskeiðsins þennan veturinn. Jón Özur Snorrason íslenskukennari með meiru kom og kynnti fyrir þeim indverska matargerð og vakti hann mikla lukku. Nemendur fengu stutta kynningu á á þeim hráefnum sem notuð eru við eldamennskuna og fékk lyktar- og bragðskyn nemenda að vinna að fullu við greiningu þeirrar flóru sem til er í framandlegum og spennandi kryddum. Það voru eldaðir voru nokkrir réttir með mismunandi áherslum, steikt brauð, eldaður kjúklingur, gerð jógurtsósa ásamt svíðandi sterkri tómatsósu og búinn til ostur.
Litagleðin réð ríkjum og nemendur voru sáttir við útkomuna eftir annars skemmtilega, spennandi og framandi eldamennsku.
Við þökkum Jóni Özuri kærlega fyrir skemmtilegt innlegg en tíminn tókst einkar vel og gengu nemendur sáttir út í vorið.
Með kveðju, Helga Kristín Sæbjörnsdóttir kennari MAT173.