IMG_3946Frá bókasafninu á nýju ári

Gleðilegt nýtt lestrarár 2011

Þegar útlánstölur bókasafns ML, fyrir árið 2010, voru teknar saman kom í ljós sú ánægjulega staðreynd, að útlán eru enn töluvert  að aukast á bókasafninu.  Heildarútlán ársins voru s.s. 1964.

Árið 2009 voru þau 1886, árið 2008 1845 og 1761 árið 2007.

Safnið flutti í nýtt húsnæði haustið 2006, eða í Menntaskólann úr Héraðsskólanum, og því eru útlánstölur það árið  varla tölulega marktækar,  þar sem flutningur safnkosts stóð  yfir nánast frá byrjun skólaárs 2006 til nóvemberbyrjunar. Þó má segja frá því að það ár voru heildarútlán 1009 og  304 útlán af þessum 1009 voru í mánuðunum nóv. og des., þ.e. eftir að safnið hafði opnað á nýja staðnum.

Markmið á núverandi ári er að komast yfir 2000 útlána vegginn og helst vel yfir hann.

 

Snara.is

Nú nýverið samdi ML við aðstandendur veforðabókavefsins  http://snara.is, um ótakmarkaðan rétt nemenda og starfsfólks skólans  til notkunar á vefnum, gegnum netkerfi skólans. Það þýðir að hægt er að nota þær fjölmörgu orðabækur sem vefurinn hýsir, meðan notandinn er tengdur með IP-tölu ML.

Áður hafði Mmr. greitt fyrir aðgang  grunn- og framhaldsskóla að vefnum, en því var hætt núna um áramótin og hverjum skóla fyrir sig gert að taka ákvörðun um hvort hann myndi semja og greiða síðan sjálfur fyrir aðgang.

Þegar fyrir lá að hér innan ML þyrfti að taka ákvörðun um hvort halda skyldi aðganginum opnum, var m.a. farið í að skoða notkunina innan skólans. Kom þá í ljós, eins og reyndar hafði verið búist við, að hún var gríðarlega mikil, og reyndar meiri en haldið var. Þetta er geta náttúrlega ekki verið annað en góðar fréttir, og vísa vonandi til þess að ML-ingar stunda nám sitt vel.

 

Opnunartímar bókasafnsins á vorönn 2011

Engin breyting verður á opnunartímum, eða:

Mánudagar 10.30-12.15 og 13.00-18.00

Þriðjudagar 09.00-12.15 og 13.00-18.00

Miðvikudagar 13.00-18.00

Fimmtudagar 09.00-12.15 og 13.00-18.00

Grunnskólatímar frá 09.00-10.30 á mánudögum

Lestímar menntaskólanema eru mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 17.00-18.00, en á þeim tímum er safnið lokað öðrum.