Nú á vorönn stóð Félag þýzkukennara fyrir stuttmyndasamkeppni. Nemendur í þýsku 303 hér á Laugarvatni tóku þátt og stóðu sig með mikilli prýði. Þeir sendu inn tvær stuttmyndir og lentu báðar í verðlaunasætum. Í öðru sæti lenti Der Geist eftir þær Dönu Heiðu Becker, Elínu Helgu Jónsdóttur, Eneku Sigurðardóttur, Olgu Axelsdóttur og Rannveigu Góu Helgadóttur. Í fyrsta sæti lenti Ich bin wer ich bin eftir Alexander Vigfússon, Hafstein Eyvar Jónsson, Håkon Snæ Snorrason, Rúnar Guðjónsson og Sunnevu Björk Helgadóttur. Í þriðja sæti lenti stuttmynd frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Það er einkar ánægjulegt að þetta er annað árið í röð sem Laugvetningar bera sigur úr býtum í þessari samkeppni.
Verðlaunaafhending fór fram síðastliðinn föstudag 19. maí, í bústað þýska sendiherrans í Reykjavík. Þangað fórum við fylktu liði frá Laugarvatni þar sem nemendur tóku við verðlaunum og viðurkenningum frá Herberti Beck, sendiherra Þýskalands. Á meðfylgjandi myndum má sjá nemendur með verðlaunagripi og viðurkenningar ásamt sendiherranum og Solveigu Þórðardóttur, formanni Félags þýzkukennara. Veðrið var einkar gott þennan dag og tóku nemendur því nokkra leiki við sendiherrann í fótboltaspili sem stóð úti á stétt. Það var mikil gleði sem fylgdi því eins og myndirnar bera með sér.
Jafnframt fór fram Rammstein-getraun. Dana Heiða Becker var ein af þremur sem vann miða á Rammstein tónleikana sem haldnir voru síðastliðinn laugardag, 20. maí, í Kórnum í Kópavogi. Auk þess fékk hún baksviðsmiða og því fékk hún að hitta hljómsveitina fyrir tónleikana.
Hér hægt að horfa á stuttmyndirnar:
Ich bin wer ich bin: https://www.youtube.com/watch?v=RclF88DqWa4
Der Geist: https://www.youtube.com/watch?v=ez2Qo9RDicw