mavistStarfsmannafélagið (STAMEL), kennarafélagið (KEMEL) og skólinn, stóðu fyrir þriggja daga kynnisferð norður yfir heiðar, sem hófst á sumardaginn fyrsta. Megin markmiðin með ferðinni voru: (a) heimsóknir í Menntaskólann á Tröllaskaga í Ólafsfirði og Menntaskólann á Akureyri og (b) heimsókn til fyrrum samstarfsmanna, þeirra Hilmars Jóns Bragasonar sem býr í Tjarnargarðshorni í Svarfaðardal, og sem tók á móti hópnum af sérstökum rausnarskap ásamt Jóni sínum (Jón er nafnið á hundi Hilmars), og Atla Rafns Kristinssonar sem býr að hluta á Dalvík og sem var betri en enginn í leiðsögn hópsins um utanverðan Eyjafjörð og Svarfaðardal.

Ekki voru heimsóknir í skólana tvo síður vel heppnaðar. Það var afskaplega gaman að sjá hvernig Tröllaskagafólk tekst á við að stofna nýjan skóla samkvæmt nýrri námskrá og hvernig hinn rótgróni menntaskóli á Akureyri er að móta sér stefnu innan þessarar sömu námskrár. Leiðsögn um heimavist Akureyrarskólanna tveggja (MA og VMA) sýnir fram á hve margt er líkt þar og hér, þó það sé ólíkt, ef þannig má að orði komast.

Bjartviðri, gott skipulag stjórnar félaganna, fagmennska bílstjórns, ljúfar móttökur norðanmanna og annað sem ekki er nefnt hér, varð til þessa að gera ferðina harla glæsilega.

-pms

Heilmikið af myndum frá ferðinni er í myndasafni.