GPSGANGAFöstudaginn 25. október s.l. fór framhaldshópur í útivist í sína árlegu GPS og áttavita gönguferð. Þetta er dagsferð  þar sem nemdur æfa sig í að rata eftir GPS tæki og áttavita. Lagt var af stað um kl. 10:00 frá skólanum í bifreið frá Guðmundi Tyrfingssyni og ekið sem leið liggur inn að Skjaldbreið og stoppað við mynni Langadals. Þar hófst gönguferðin um kl. 12:00, eftir að tekin hafði verið hópmynd af þeim 22 nemendum og 2 fararstjórum sem voru með í för. Búið var að setja 12 punkta (hæla) út gönguleiðina sem nemendur áttu að finna.

Nemendum var skipt í sex hópa og fékk hver hópur eitt GPS tæki og einn áttavita ásamt tveimur punktum (hnitum) til að finna. Skiptust hóparnir svo á að vera í forystu. Ferðin gekk að mörgu leyti vel. Það var frábært veður, gott skyggni og frábært útsýni. Nemendur voru  líka vel stemmdir og klæddir. GPS tækin voru samt aðeins að stríða göngugörpunum. Keypt höfðu verið ný GPS tæki  en það var töluverð skekkja á nýju tækjunum miðað við þau gömlu þannig að á endanum voru það gömlu tækin sem virkuðu best. Gengið var sem leið lá inn Langadalinn yfir Snorrastaðafjall og komið niður Laugarvatnsfjall á móts við Heimavistir ML. Ferðin tók um sex og hálfan klukkutíma og voru gengnir um það bil 15-16 kílómetrar. Nemendur allir stóðu sig með prýði og voru reynslunni ríkari eftir þessa ferð um  meðferð og  notkun á GPS tækjum.

Ólafur Guðmundsson og Pálmi Hilmarsson

MYNDIR