Nú eru nemendur væntanlega að mestu leyti komnir í faðma fjölskyldna sinna og hafa tekið til við að aðstoða við jólaundirbúninginn af kappi.
Síðustu prófin voru lögð fyrir í gær og vonir standa til að fyrir helgina liggi allar niðurstöður fyrir. Hverjar sem þessar niðurstöður verða, hljóta þær að kalla fram viðeigandi viðbrögð: allt frá gleði og stolti yfir launum erfiðisins, niður í vonbrigði og eftirsjá vegna illa nýtts tíma. Við vonum auðvitað að niðurstaðan sem blasir við endurspegli þá vinnusemi og ástundum sem að baki liggur, því þannig á það að vera.
Þeir sem ganga ánægðir frá þessu einkunnaborði, geta nú sett sér hærri markmið fyrir komandi önn, þeir sem eru síður ánægðir, geta sett sér markmið um að gera betur þannig að niðurstaðan eftir námið þennan veturinn verði þeim til sóma. Þegar upp er staðið snýst nám kannski ekki síst um að fjölga tækifærum sínum í framtíðinni.
Megi nemendur og fjölskyldur þeira njóta friðsællar jólahátíðar og skemmtilegra en slysalausra áramóta. Svo sjáumst fílefld á nýju ári til að takast á við verkefni vorannar. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þann 7. janúar.
pms
Myndina tók Rúnar Gunnarsson