Létt æfing fyrir utan Sacré-Cœur Nú er enn einni vel heppnaðri Parísarferð frönskunema við ML lokið. Hópurinn hélt út föstudaginn 19. september og dvaldi í Paris í fjóra daga. Haustið í París tók á móti okkur með hlýju lofti þar sem skiptust á skin og skúrir. Óvenju heitt var miðað við árstíma og sumir nemendanna leituðu oft í skuggann en fararstjórarnir nýttu hverja sólsksinsstund sem gafst. Hópurinn taldi 15 nemendur ásamt Grímu Guðmundsdóttur frönskukennara og Erlu Þorsteinsdóttur húsfreyju á heimavist.

Við dvöldum á sjamerandi og mjög gömlu hóteli í Latínuhverfinu, ekta frönsk stemning þar. Sorbonne háskóli, Notre-Dame dómkirkjan og áin Signa  í næsta nágrenni. Mikið var gengið og fannst sumum nóg um, en neðjarðarlestir voru óspart notaðar til að komast staða á milli. Hópurinn skoðaði m.a. Eiffel-turninn,  Breiðgötuna Champs-Élysées, Louvre-safnið, Le Panthéon,  Montmartre hverfið og Sacré-Cœur, Père-Lachaise kirkjugarðinn, nágrannafrúna Notre-Dame og Versali, eina glæsilegustu höll Evrópu.  

Í Montmartre hverfinu var góð stemning þar sem götulistamenn sýndu listir sínar. Einn af ML-ingunum lét ekki sitt eftir liggja eins og sjá má á forsíðumynd fréttarinnar. Aðrir létu teikna sig á Place du Tertre. Síðasta kvöldið borðuðum við á veitingastaðnum Polidor sem er einmitt sögusvið myndarinnar Midnight in Paris, þar sem Gil hittir Hemingway. Í kjölfarið tók við einn af  hápunktum ferðarinnar; kvöldsigling á Signu.

Nemendur æfðu sig heilmikið í frönsku og kynntust heillandi borg. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið öllum lærdómsrík og skemmtileg. Við heimkomu vinna nemendur verkefni, flytja fyrirlestra og útbúa plaköt um Parísarferðina.

Það er gaman og gefandi að fara með nemendum í svona ferð. Skólanum vil ég færa kærar þakkir fyrir stuðning við undirbúning og framkvæmd ferðalagsins.

Gríma Guðmundsdóttir, frönskukennari.

Myndir eru ómissandi

Myndasmiðirnir eru Elva Rún Erlingsdóttir og Erla Þorsteinsdóttir