tv_172_hlask_haust_2010_086Föstudaginn 17. sept. 2010 lagði hópur nemenda í útivistarvali í ML, 36 að tölu, af stað í árlega haustgönguferð og var ætlunin að ganga með Laxárgljúfrunum sem skilja að Gnúpverjahrepp og Hrunamannahrepp.

Búið var að kynna nemendum í kennslustund, allt er varðaði ferðina eins og hvað skyldi taka með, hvenær skyldi lagt af stað o.s.frv.

Klukkan 13:00 voru nemendur klárir í rútuna og lagt var af stað frá ML og keyrt langleiðina að Helgaskála á Hrunamannaafrétti. Þar var nestinu fyrir daginn útbítt, nemendur fóru í göngugallan o.s.frv.

Hér var klukkan 15:00 og því ekkert að vanbúnaði að leggja „íann“. Gengið var meðfram Laxárgljúfrunum í um 2 klst, í  átt að Flúðum og svo til baka í rútuna. Var þetta um 11 km ganga samtals.

Við lögðum svo að stað í rútunni um 19:00 í náttstað sem var Hólaskógarskáli í Gnúpverjahreppi eins og mörg undanfarin ár.

Komum við í skálan rétt fyrir níu um kvöldið.

Þegar í skálan var komið tók grillhópurinn svokallaði til við að grilla pyslur af miklum móð og stóðu nenendur sem skipuðu þann hóp sig mjög vel. Að gómsætri pylsumáltíð lokinni tók skemmtihópurinn til starfa við að undirbúa kvöldvöku, á meðan aðrir slöppuðu af og létu fara vel um sig.

Kvöldvakan stóð í um klst. og bar aðeins á þreytu meðal nemenda enda búið að ganga tölvuvert yfir daginn og komið með seinna fallinu í skálann.

Um kl. 01:30 voru flestir sofnaðir eftir erfiðan en skemmtilegan dag.

Morguninn eftir var ræst í morgunmat um kl. 08:00 og svo að sjálfsögðu endaði skálaveruna, þrifhópurinn ógurlegi sem fór eins og stormsveipur um neðri hæð skálans og þreif hann á engum tíma.

Unnar skálavörður er vanur að taka myndir af öllum hópum sem koma í skálann, prenta þær út og plasta og láta liggja frami þar sem hægt er að skoða myndirnar. Hér varð engin breyting á og var öllum nemendum útivistarinnar safnað við torfkofa einn úti til hópmyndatöku. Á meðan nemendum var stillt upp þá sýndi Unnar skálavörður nemendum ákveðið tæki sem segir honum hvort álfar vaki yfir okkur eður ei. Þótti þetta spennandi enda kom í ljós samkvæmt þessu að álfar eru þarna á sveimi 🙂

Klukkan rúmlega hálfellefu var keyrt að Háafossi sem er í nágrenninu til að leyfa nemendum að skoða þennan fallega foss.

Um hálftíma síðar var svo lagt af stað í loka göngusprettinn sem var frá Hólaskógarskála og niður að Stöng í Þjórsárdal. Voru þetta um 6 km.

Pálmi húsbóndi keyrði okkur svo á Laugarvatn aftur, með viðkomu hjá Hjálparfossi. Voru það þreyttir en ánægðir nenemdur, stoltir yfir að hafa lagt að baki um 17 km göngu, sem komu á Laugarvatn um kl. 14:30 laugardaginn 18. sept.

 

Með útivistarkveðju,

Óli G og Pálmi.