Mánudaginn 22. september fengu nemendur í 1F í fjármálalæsi heimsókn frá Seðlabanka Íslands. Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabanka Íslands kom og hitti hópinn í fyrirlestrarsal skólans og fór meðal annars yfir sögu Seðlabankans, tilgang hans og tengingu við almenna fjármálastarfsemi í landinu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlit. Hann fór yfir hugtakið verðbólga, útskýrði tilgang, hegðun og áhrif verðbólgunnar á efnahagslífið. Hann talaði um notkun greiðslukorta og seðla og fór yfir þróun peningaseðla og mynta í landinu, hönnun þeirra og öryggisþætti. Krakkarnir fengu að handleika sýnishorn af 10.000 kr. seðli með aðstoð bluelight til að sjá hvernig ákveðnir öryggisþættir seðilsins skipta um lit undir ljósinu. Hann kom einnig með peningaseðil frá Zimbabwe sem var hvorki meira né minna en 50 milljarða seðill, sem er beintengt við verðbólguna og hvernig virði seðlanna minnkar og minnkar. 

Stefán Jóhann fræddi nemendur einnig um Seðlabankann sem vinnustað, upplýsingar um starfsmannafjölda og fleira. Hann fór yfir sína sögu innan bankans, hans menntun og hvernig hún hefur nýst í vinnu sinni í Seðlabankanum. 

Við þökkum Stefáni Jóhanni kærlega fyrir heimsóknina.