img_44325Lokaþáttur ML-dagsins var söngkeppnin ‘Blítt og létt’, en þar er valinn fulltrúi skólans til að taka þátt í árlegri söngkeppni framhaldsskólanna. Það voru hvorki meira né minna en 17 atriði sem þarna voru flutt fyrir fullu húsi í Íþróttahúsi ÍHÍ. Fjöldi nemenda úr grunnskólum á Suðurlandi var meðal gesta á keppninni.

Atriðin sem fram voru færð voru af ýmsum toga, allt frá rólegheita ballöðum til einhverskonar harðkjarna strigabassarapps. Þarna var m.a. að finna tvö fumsamin lög auk þess sem íslenskur tónlistararfur átti sinn fulltrúa.

Undir tónlistaratriðunum lék hljómsveitin Stone Stones, en hana skipa þrír núverandi nemendur skólans, þeir Hörður Már Bjarnason, Hróðmar Sigurðsson og Steinn Daði Gíslason, auk Arnars Kára Guðjónssonar, fyrrum nemanda í skólanum.  Ekki verður annað sagt en að hér sé á ferð einstaklega öflug hljómsveit og gaman fyrir skólann að vera með svo hæfileikaríka tónlistarmenn innan sinna vébanda.

Dómararnir þrír, sem höfðu það verkefni að skera úr um sigurvegara, voru þau Margrét Bóasdóttir, Jóel Fr Jónsson og Birkir Kúld Pétursson.

Kynnar voru þeir Aron Tommi Skaftason og Jóhann Halldór Sigurðsson, en þeir eru svokallaðir fimmtu bekkingar.

Mikil spenna var í salnum þegar kom að því að kynna úrslitin, en þau urðu þessi:

1. sæti: Helgi og félagar (Helgi Jónsson ásamt bakraddasöng þeirra Sölva Más Birgissonar, Guðmundar Snæbjörnssonar, Arons Nökkva Ólafssonar og Ragnars Kristinssonar) Þeir félagarnir fluttu lagið’Take on me’, á lifandi og skemmtilegan hátt.

2. sæti: Jóhanna, Bryndís, Snæbjörg og Hörður Már, fyrir flutning sinn á laginu ‘Dull flames of Desire’

3. sæti: Robot Margaritas Alejandro Adios Amiga Tout le monde Ensemble Sauerkraut Hansen fyrir flutninginn á ‘Boys, boys, boys’.

Atli Eyberg Örlygsson og félagar hans hlutu verðlaun fyris bestu sviðsframkomuna.

Dómnefndin lýsti ánægju með flutning Birkis, Sveins, Hjölla og Hlyns á Krummavísum og einnig taldi hún fram skemmtilegan flutning og hljóðmyndir þeirra félaga í Hernandez & S****face =******  í laginu Slampage, sem var frumsamið.

pms