hreyfi23091503Það hefur varla farið framhjá mörgum að nú stendur sem hæst Hreyfivika UMFÍ og hafa boðberar um allt land sameinast um það að bjóða upp á fría hreyfingu í tilefni þess.

Hreyfivikan er evrópskt verkefni sem byggir á því að hreyfa við fólki og minnka kyrrsetu en um 600.000 dauðsföll má rekja til hreyfingarleysis og er óbeinn kostnaður um 100 billjónir á ári bara í Evrópu. Ætlunin er að fá sem flesta til þess að finna þá hreyfingu sem vekur mesta gleði og hvetur einstaklinginn til þess að halda áfram ástundun án kvaðar og skyldu.

Boðberar hreyfingar taka þátt í starfinu sem sjálfboðaliðar og fá ekkert greitt nema ánægjuna af því að hreyfa sig og hvetja aðra til þess að taka þátt. Verkefnið er orðið gríðarlega stórt og má finna boðbera í öðru hverju bæjarfélagi hér á Íslandi. Laugarvatn er að sjálfsögðu ekki undanskilið og tekur Menntaskólinn að Laugarvatni þátt í verkefninu með því að bjóða aðstöðu til hreyfingar. Boðið er upp á jóga þessa viku í enskustofu en þar sameinast kennarar, nemendur og aðrir íbúar bæjarins í jógískri stemningu þar sem bæði líkami og sál eru ræktuð af mikilli alúð.

Þess má geta að næsti jógatími verður í enskustofu, fimmtudaginn 24. september kl. 18:30.

Nánari upplýsingar um verkefnið og boðbera er að finna hér: http://iceland.moveweek.eu

Kær kveðja,

Helga Kristín jógakennari og boðberi.