kongulo1Í Menntaskólanum að Laugarvatni reynum við ávallt að sjá bæði stóru myndina og þá litlu og skiptir þá ekki máli hvaða málefni, dýr eða hlutur á í hlut. Skömmu eftir hádegi lét námsráðgjafinn undirritaðan vita af því að hann skyldi taka sér myndavél í hönd áður en hann færi upp á kennarastofu þar sem hann átti síðan taka mynd af nýuppgötvaðri tegund í óskilgreindu boxi.

kongulo2Þegar myndavélin hafði verið undirbúin af kostgæfni fyrir verkið, lá leið upp á loft þar sem kennarastofan er, í þann mund er kennarar gengu til tíma. Þar sem hann gekk niður stigann heyrðist félagsfræðikennarinn hafa á orði að þarna væri örugglega um að ræða afkvæmi hrossaflugu og kóngulóar. Það var meðal annars þessvegna sem spennan fór vaxandi er nær dró kennarastofunni. Þegar þangað kom var enginn þar fyrir og því þurfti að leita að nefndu boxi, sem síðan fannst bak við hurð. Þetta var lítið box og þar með ljóst að ekki væri þessi nýuppgötvaða tegund yfirmáta stór. Það var lok á boxinu á á það hafði verið límdur miði sem á stóð: Ekki opna. Kónguló ofaní. Myndasmiðurinn tilvonandi taldi þar með að þarna væri eitthvert það kvikindi á ferð, sem gæti jafnvel átt það til að stökkva á þann sem opnaði og þá jafnvel beita eiturbroddi. Hvernig átti annars að skilja þessi skilaboð?  Sem betur fer leið ekki á löngu áður en námsráðgjafinn, forstöðumaður bókasafnsins og líkanasmiðurinn komu inn á kennarastofuna, en þau reyndust hafa uppgötvað hina meintu „nýju tegund“. Þau þekktu hana því nokkuð vel af fyrri kynnum og þar með, að ekki þyrfti að óttast það sem farið hafði um huga myndasmiðsins.

 

kongulo3Boxið var opnað og því fylgdu tiltekin viðbrögð tiltekinna fulltrúa mannkyns. Myndir voru teknar, sem síðan reyndust fáar vera í fókus, sem eðlilega hlaut að vera vegna þess að úrval linsa til verkefnis af þessu tagi er einstaklega takmarkað, en það mun standa til bóta eftir því sem flensan líður hjá.

Reiknað er með að líffræðikennarinn skili af sér greiningu á tegundinni er á líður næstu viku.

– pms

Það skal tekið fram, að þessi „frétt“ er skrifuð í nokkrum hálfkæringi og ber að taka innihaldi hennar í því ljósi.