4F við AlþingishúsiðFöstudaginn 14 nóvember síðastliðinn héldu nemendur í 4F sem sitja stjórnmálafræðiáfanga þessa önnina í námsferð til Reykjavíkur.

Fyrsti áfangastaðurinn var Alþingi, en þar fengu nemendur leiðsögn um húsakynnin. Þeim var kynnt saga þessarar merkilegu byggingar og þingstörfum. Leiðsögumaður um húsið var Sigríður H. Þorsteinsdóttir, en hún hafði sér til aðstoðar Ögmund Jónasson þingmann úr röðum Vinstri grænna, en hann ræddi við nemendur í lok skoðunarferðarinnar sem fulltrúi flokksins um stefnumál hans. Þar gafst nemendum tækifæri til að spyrja þingmanninn spurninga og eiga við hann góð samtöl um margvísleg málefni. Eftir heimsóknina í Alþingi lá leiðin á Castello í Hafnarfirði þar sem var sest að pizza hlaðborði og nemendur fóru því næst, vel mettir á fund forseta Íslands á Bessastöðum. Forsetinn tók vel á móti hópnum og sátu nemendur í borðstofunni á Bessastöðum og snæddu pönnukökur ásamt því að drekka te og kaffi meðan þeir ræddu um forsetaembættið, stjórnarskrána, valdakerfið á Íslandi ásamt stjórnskipuninni. Það var mjög fróðlegt og gefandi fyrir nemendur að ræða við forsetann um þessi mál. Forsetinn gaf sér góðan tíma og leyfði margar spurningar sem hann svaraði vel og ítarlega og tíminn leið hratt, en allt þurfti að taka enda því nemendur áttu stefnumót við unga sjálfstæðismenn í Valhöll klukkan 15:00 og því var forsetinn kvaddur með virktum og haldið til Valhallar.

Þar tóku á móti hópnum Magnús Júlíusson formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna og nafni hans Sigurbjörnsson framkvæmdarstjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðisflokksins. Þeir héldu stutta kynningu á sögu flokksins, helstu stefnumálum og hvernig ungliðahreyfing flokksins vinnur að málefnum innan flokksins. Undir kynningunni gæddu nemendur sér á veitingum. Gestirnir höfðu margar spurningar fyrir þá félaga um margvísleg málefni líðandi stundar og höfðu þeir félagar gaman að því að taka þátt í virkum samræðum við nemendur og útskýra stefnu og málstað flokksins í mörgum málum.  

Næst lá leiðin á fund ungra jafnaðarmanna en það var einmitt síðasti viðkomustaður nemendahópsins í þessari námsferð. Þar var vel tekið á móti hópnum eins og annarsstaðar í ferðinni og nemendum boðið upp á kleinur og annað bakkelsi. Ingvar Þór Björnsson framhaldsskólafulltrúi þeirra bauð nemendur velkomna og hélt stutt erindi. Þórarinn Snorri Sigurgeirsson varaformaður ungra jafnaðarmann tók síðan til máls og fræddi nemendur um sögu Samfylkingarinnar og stjórnmálastefnu flokksins sem var mjög vel framsett. Áður en nemendur gátu spurt fulltrúa flokksins sem mættir voru á staðinn kom Katrín Júlíusdóttir þingmaður og varaformaður flokksins með hvatningarræðu til nemenda um að taka virkan þátt í stjórnmálum þar sem að samfélagið þarf á ungu fólki að halda og að ungt fólk hafi afskipti af stjórnmálum. Hver kynslóð þarf sína þingmenn og hefur margt fram að færa um samfélagsleg málefni líðandi stundar auk þess sem hún benti á að Alþingi, eins og aðrir vinnustaðir, eru mjög skemmtilegur vinnustaður, þar sem fjölbreyttur hópur fólks starfar saman þó fólk takist á eins og það á að gera þegar málefni sem snúa að grundvallar skipulagi samfélagins eru rædd.

Nemendur héldu síðan heim með Pálma í rútunni aftur á Laugarvatn uppfullir af fróðleik og tilbúnir að ræða pólítíkina við samnemendur á ballinu sem var seinna um kvöldið og hafa það eflaust verið skemmtilegar umræður.

HÖD

MYNDIR