Eftir að innritunarferli er nú búið að standa ungann úr júnímánuði, hyllir undir að allt liggi ljóst fyrir um niðurstöður. Því er ekki að neita að þessi tími ársins er alltaf jafn skemmtilegur og spennuþrunginn. Á liðnu skólaári var skólinn fullsetinn og svo verður einnig á komandi vetri.

 

Verklagsreglur vegna innritunar í framhaldsskóla gera ráð fyrir að aðgangur umsækjenda að Menntagátt verði opnaður n.k. mánudag, 27. júní, og þá er hægt að fá upplýsingar um afdrif umsóknanna. Við sendum frá okkur póst til verðandi nýnema á föstudag, 24. júní,  og mega þeir því eiga von á bréfi á mánudag, ef að líkum lætur. Í þessu bréfi eru ýmisskonar upplýsingar um það sem framundan er, auk eyðublaða, sem þarf að fylla út og senda inn. Þá verður einnig sendur greiðsluseðill vegna innritunargjalda.

Við hlökkum til að kynnast nýjum nemendum og foreldrum þeirra þegar hausta fer, og einnig hlökkum við til að sjá hvernig eldri nemendur koma undan sumri. Svona er þetta.

Ef nauðsyn er á, eftir að afgreiðsla umsókna er ljós, að fá upplýsingar varðandi innritunina, er hægt að senda póst á ml@ml.is , en við munum fylgjast með póstinum þar í sumar.

Njótum sumarsins.

pms