isklifurLaugardaginn 2. mars fór framhaldshópur útivistar ML í sína árlegu klifurferð. Leiðin í ár lá á Sólheimjökul, sem er hluti af Mýrdalsjökli. Hópurinn, sem taldi níu nemendur ásamt tveimur kennurum og bílstjóra, lagði af stað frá Laugarvatni kl. 08.00 að morgni. Ferðin austur tók um tvær klukkustundir með viðkomu á Hvolsvelli, þar sem nemendur urðu sér úti um sér nesti fyrir daginn.

 Um kl. 11:30 voru allir klárir í að ganga á jökulinn og finna svæði til að klifra á. Undirritaður fékk klifursérfræðing, Ágúst Kristján Steinarrsson, með í ferðina því nauðsynlegt er að setja öryggið ofar öllu. Fór hann yfir og rifjaði upp helstu grunnatriði ísklifurs áður en lagt var í hann. Það tók hópinn um 20 mín að finna góða sprungu til að klifra í. Settar voru upp þrjár festingar fyrir jafnmargar línur og gátu því þrír klifrað í einu og þrír þar af leiðandi tryggt niðri. Það er mjög mikilvægt að kunna til verka við að tryggja eins og það heitir en þá er tryggjandinn, sem er  á jörðu niðri, með línuna bundna í sig og er alltaf með hana strekkta og tilbúinn að halda klifrara uppi ef hann missir fót- og handfestu.

 

Með því að hafa þrjá staði til að klifra á var virkni nemenda mjög mikil og góð og þeir fengu mikla æfingu í ísklifri og ekki síður í að tryggja. Þegar hópurinn hafði klifrað í bland við að borða nestið, í um þrjár klukkustundir var haldið heim að rútu aftur.  Gengið frá helstu tækjum og tólum í farangursgeymslu. En það voru siglínur, klifurbelti, mannbroddar og ísaxir ofl. Ferðin þótti takast einstaklega vel en blíðskaparveður var þennan fyrri part laugardags sem gaf hópnum einstakar aðstæður til klifurs. Lagt var í hann heim á leið um kl. 14:40 og varð það Rúnar Gunnarsson, vistarvörður sem kom nemendum örugglega heim í rútu frá Guðmundi Tyrfingssyni.

 Með kv. Ólafur Guðmundsson fagstjóri í íþróttum og útivist.

myndir frá ferðinni