isklifur_frettUndanfarnar vikur hefur viðfangsefni framhaldsáfangans í útivist verið ísklifur. Farið hefur verið yfir þann búnað sem nauðsynlegur er, hvernig best er að bera sig að í ísklifri og helstu öryggisatriði, lokahnykkurinn var svo að sjálfsögðu verklegt ísklifur. Farið var af stað kl. 13:00 föstudaginn 4. febrúar frá ML og ferðinni heitið í vestanvert Ingólfsfjallið, nánar tiltekið í Lyngbrekkur, en þar er lækjarspræna sem liggur niður bratt gil og myndar skemmtilegan ísfoss þegar frost hefur verið í nokkra daga. Veður þennan dag var frekar leiðinlegt, töluverður vindur og skafrenningur, en þó ekkert sem beit á harða ML-inga.

Vegna snjós varð gangan lengri heldur en gert hafði verið ráð fyrir þar sem að ekki var unnt að koma bílunum eins langt og við hefðum viljað. Þegar ekið hafði verið eins langt og mögulegt var þennan dag var tilheyrandi ísklifurbúnaði deilt á nemendur sem báru hann að ísfossinum sem klifra átti. Þegar að fossinum var komið var byrjað á að ganga upp fyrir hann til að koma fyrir tryggingum eftir kúnstarinnar reglum og öryggislína fest í þær. Þá var hægt að hefjast handa við að klifra, nemendur skiptust á að klifra og tryggja hvern annan og stóðu sig með stakri prýði. Aðstæður voru erfiðar þennan dag, bæði vegna veðursins og vegna þess að ekki hafði myndast jafn mikill ís og vonast hafði verið en með viljan að verki var klifrað í þunnum ís og stóðu nemendur sig með prýði.

Ferðin tókst mjög vel og voru það glaðir nemendur sem héldu heim á leið eftir vel heppnaðan dag þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Nokkrir nemendur höfðu það að orði að ísklifur væri skemmtilegra en þá hafði grunað.

Smári Stefánsson og Ólafur Guðmundsson