malstefnaNemendur 3. bekkjar héldu tvo málfundi í vikunni þar sem kapprætt var um íslenska málstefnu. Þessir fundur voru hluti af námi þeirra í íslensku. Nemendur hvors bekkjar skiptu sér í þrjá hópa: Hreintungusinnar mæltu með íslenskri málstefnu og sem mestri stýringu og hvöttu tilm þess að okkar fagra íslenska mál yrði losað við erlendar slettur og málsóðaskap. Frjálslyndir töluðu hins vegar fyrir því að erlendum nýjungum jafnt í hugsun, tækni og málfari yrði mætt með opnum hug og jákvæðni. Loks var hópur sáttasinna sem töldu best að taka það besta úr báðum fyrri stefnunum, vernda íslenska tungu án þröngsýni og fordóma.

Framsögumenn héldu einbeittar ræður, stuðningsmenn þeirra tóku síðan þátt í umræðunum sem lauk svo með því að framsögumenn töluðu aftur og svöruðu þeim röksemdum sem fram höfðu komið. Síðan var kosið á milli skoðananna. Í 3.N féllu atkvæði þannig að tillögur sáttasemjara fengu 9 atkvæði, tillögur andstæðinga málstefnu 8 atkvæði og tillögur hreintungumanna 6 atkvæði. Í 3.F féllu atkvæði hins vegar þannig að andstæðingar málstefnu og sáttasemjarar fengu jafn mörg atkvæði eða 5, en hreintungumenn 3 atkvæði. Sé þetta tekið saman fengu sáttasinnar alls 14 atkvæði, andstæðingar málstefnu 13 atkvæði og hreintungumenn 9 atkvæði. Nemendur sáu sjálfir um fundarstjórn, tímavörslu og atkvæðagreiðslu af mikilli röggsemi. Málfundirnir voru nemendum til mikils sóma og efldu skilning þeirra á tungumálinu sem mikilvægum þætti samfélagsins. Á myndasíðu eru nokkrar myndir sem teknar voru á fundunum af Páli M. Skúlasyni hirðljósmyndara. /-GSæm.