Menntaskólinn að Laugarvatni starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST 85:2012 og nær til allra starfsmanna Menntaskólans að Laugarvatni.
Samkvæmt jafnréttislögum skulu fyrirtæki eða stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlast jafnlaunavottun. Það krefst vandaðra vinnubragða í mannauðsmálum og launaákvörðunum. Störf eru skilgreind, flokkuð og metin eftir skýrum viðmiðum. Þegar útreikningar liggja fyrir sést hvort verið er að greiða sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og brugðist er við óútskýrðum launamun. Faggiltir vottunaraðilar sjá til þess að fagmennska og hlutlægni liggi til grundvallar launaröðun í fyrirtækinu og ML stóðst þær kröfur. Það staðfesti vottunarstofan iCert 21. október 2021.
Í úttektarskýrslu segir: Að mati úttektarstjóra er mikill vilji og metnaður meðal æðstu stjórnenda ML til þess að nýta jafnlaunakerfið til að ná árangri. Ljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í jafnlaunakerfi ML frá því að forúttekt átti sér stað. Útfærsla og sú framkvæmd sem komin er á jafnlaunakerfi ML er með miklum ágætum þó vissulega eigi kerfið eftir að þroskast og þróast.
Freyja Rós gæðastjóri