Þriðjudaginn 23. apríl var haldin svokölluð jafnréttisvakning í ML á vegum nemenda í kynjafræði. 2-3 nemendur unnu saman í hóp og höfðu frjálsar hendur með efnistök og aðferðir, svo fremi að markmiðið væri að vekja athygli á kynjamisrétti. Tveir hópar völdu að gera bæklinga, einn um kynin í kvikmyndum en hinn um kynbundinn launamun. Þrír hópar gerðu plaggöt þar sem viðfangsefnin voru 1. klámvæðing og hlutgerving í auglýsingum, 2. klámvæðing, fyrirmyndir og staðalmyndir í barnaefni og 3. útlitsdýrkun.
Hvers vegna að halda jafnréttisvakningu? Eitt stærsta verkefnið jafnréttisbaráttu nútímans er vitundarvakning. Vekja fólk til meðvitundar um stöðu kynjanna. Lagalegt og formlegt jafnrétti er langt komið á Íslandi en það næst ekki fullt, raunverulegt jafnrétti fyrr en fólk verður meðvitað og tilbúið til að brjóta upp rótgrónar hefðir og venjur sem viðhalda ójafnrétti. Ólík staða kynjanna er svo rótgróin í menningunni okkar að við tökum oft ekki eftir því að það sé nokkuð athugavert fyrr en það er sérstaklega bent á það og við förum að hugsa virkilega út í það. Það er stundum kallað að „setja upp kynjagleraugun“ og það er það sem reynt er að stuðla að með jafnréttisvakningunni.
Kennari notaði tækifærið til að vekja athygli á jafnréttisáætlun ML þar sem kveðið er á um markmið og aðgerðir sem ætlað er að stuðla að auknu jafnrétti í ýmsu samhengi, í skólastarfinu.
FRH