Það var heldur betur annasamur og fróðlegur ferðadagur sem nemendur á þriðja ári í jarðfræði og áfanganum FERÐ2US05, Upplifðu Suðurland áttu með kennurum sínum síðastliðinn mánudag (14. október) en nemendur vinna svo verkefni sem tengist ferðinni.
Við byrjuðum á því að skoða Gullfoss, Geysi og Brúarhlöð. Þá var ferðinni heitið á Midgard á Hvolfsvelli þar sem við snæddum hamborgara og fræddumst um fyrirtækið þeirra. Við komum svo við í Kötlu Geopark á Þorvaldseyri þar sem við fengum að hlýða fyrirlestur um eldgosið sem átti sér stað á Eyjafjallajökli árið 2010. Við stoppuðum einnig á Skógasafni og Reynisfjöru en nemendur fræddu okkur nánar um alla staðina í rútunni á leiðinni. Við fórum svo alla leið til Víkur á Lava show sem var mikil upplifun sem við getum sannarlega mælt með.
Eftir vel heppnaðan dag enduðum við á því að borða góðan mat saman á Hótel Rangá. Það er óhætt að segja að við búum við mikil forréttindi hér á Suðurlandi með alla þessa náttúrufegurð og möguleika í kringum okkur.
Við látum nokkrar myndir fylgja en minnum jafnframt á instagram síðuna okkar: menntaskolinnaðlaugarvatni
Karen Dögg, Heiða Gehringer og Jón Snæbjörnsson kennarar.
(myndir tóku Karen Dögg og Soffía Margrét Sigurbjörnsdóttir 3N)