jardfrferdÞær kjarnakonur, Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðikennari og Gríma Guðmundsdóttir, námsráðgjafi, brugðu undir sig betri fætinum fyrir nokkru með 4. bekk að föruneyti. Þarna var um að ræða samþættingu á árlegri jarðfræðiferð og árlegri ferð til háskólakynningar í höfuðborginni. Samkvæmt punktum frá öðrum fararstjóranum gekk ferðin fyrir sig, í stórum dráttum, eins og lesa má í framhaldinu.

Ekið var sem leið liggur, frá Laugarvatni að skoðunarsvæði í Seyðishólum (þar sem hnyðlingar* eignuðust unga hugi alla, með réttu eða röngu) og Kerinu, en þaðan í Hveragerði,  þar sem leið lá um hveragarðinn, er fyrir ofan bæinn hafa myndast nýir hverir og virkni jókst árið 2008. Þessu næst var litið inn í Hellisheiðarvirkjun, þar sem RíóTríó-maðurinn Helgi Pé (Helgi Pétursson, frændi aðstoðarskólameistara) tók á móti hópnum og kynnti virkjunina.

Þegar hér var komið töldu fararstjóranir tíma til að fá sér í svanginn. Hamborgarasmiðjan var, eins og kemur fram í punkunum sem frásögn þessi byggir á, „fínn staður, kósý“.

Mettir héldu menntskælingar í Háskólann í Reykjavík, en þar vor móttökur einkar góðar. Auk kynningarfulltrúans Kristínar Ágústsdóttur kynntu kennarar og nemendur úr hverri deild, sig og sitt. Þarna var auðvitað að finna ML-inga, m.a. Sigurð Tómas Magnússon (stúdent 1980), en hann er atvinnulífsprófessor í lagadeild. Þarna var ennfremur fyrrverandi kennari í ML, Þórdís Gísladóttir, hástökkvari, sem er lektor í íþróttafræðum.  Heimsóknin í HR reyndist afar áhugaverð og vakti talsverða hrifningu meðal ML-inga.

Þá var næstur Háskóli Íslands þar sem Björg Magnúsdóttir kynnti skólann og starfsemina í hátíðasalnum í aðalbyggingu skólans. Að því búnu var vettvangsferð um húsnæðið, kapelluna, háskólatorg, Odda, Öskju og fleiri áhugaverða staði. Þessi heimsókn vakti margar spurningar og kveikti áhuga og efldi metnað til afreka í framtíðinni, án efa.

Heim var haldið, með viðkomu í Vellankötlu**.

Í punktunum, sem áður hafa verið nefndir, kemur fram að þessi samþættingarferð jarðfræði og háskólakynningar hafi verið „skemmtileg og lærdómsrík“. Ennfremur, að ekki megi gleyma að minnast á Pálma (Hilmarsson), sem var bílstjóri í ferðinni.

-pms

 

* bergmoli sem brotnað hefur úr vegg gosrásar djúpt í jörðu og borist upp með bergkvikunni en er annarrar gerðar en kvikan (xenolith)

** (upphaflega Vellandi katla) nafn á uppsprettum syðst og austast í Þingvallavatni.

Það eru myndir frá ferðinni í myndasafni