Fimmtudag og föstudag í síðustu viku hélt kórinn sína árlegu jólatónleika í Skálholtskirkju. Spenningurinn var mikill, bæði hjá áhorfendum og kórmeðlimum. En myndast hafði röð fyrir utan kirkjuna töluvert áður en húsið var opnað enda var uppselt á báða tónleikana áður en forsölu lauk. Fjöldi nýliða bættust við kórinn úr fyrsta bekk þetta árið og stóðu þau sig með prýði á sínum fyrstu stórtónleikum með kórnum. Lagavalið var fjölbreytt, allt frá enskum jólasálmum yfir í íslensk ljóð og má þar nefna: Heilagi Drottinn himnum á, Happy X-mas, A spaceman came travelling og Dansaðu vindur. Óhætt er að segja að tónleikarnir heppnuðust vel og vonandi allir sem fóru með jólaskapið með sér heim.
Kórinn er svo sannarlega ríkur af hæfileikaríkum hljóðfæraleikurum og ekki er annað hægt en að nefna þau sérstaklega og þakka fyrir: Gísella Hannesdóttir, Jónína Njarðardóttir og Þóra Björg Yngvadóttir spiluðu á píanó, Júlía Katrín Lárusdóttir og Ronja Valdimarsdóttir spiluðu á fiðlu, Bergrún Bjarnadóttir, Fanndís Hjálmarsdóttir og Freyja Benónýsdóttir spiluðu á þverflautu, Svavar Axel Malmquist spilaði á bassa ásamt Almari Mána Þorsteinssyni sem spilaði einnig á gítar með honum Þresti Fannari Georgssyni, Oddný Benónýsdóttir spilaði á selló, Sindri Bernholt spilaði á trompet og Bjarni Sigurðsson spilaði á trommur.
Eyrún Jónasdóttir kórstjóri á heiður skilið fyrir vel unnin störf og einnig er vert að minnast á kórstjórnina sem stóð sig virkilega vel í tengslum við allt skipulag og miðasölu. Í kórstjórn sitja Laufey Helga sem formaður, Bergrún Anna er varaformaður, Anna Katrín er gjaldkeri og Helga Margrét er ritari. Allar eru þær á þriðja ári.
Við látum nokkrar myndir fylgja af viðburðinum.
Jólakveðjur, Karen Dögg verkefnastýra kórs ML.