Í síðustu viku hélt kórinn sína árlegu jólatónleika í Skálholtskirkju. Uppselt var á báða tónleikana, fimmtudag og föstudag, enda orðin ákveðin jólahefð hjá mörgum. Sígild jólalög voru áberandi og má þar nefna: Það á að gefa börnum brauð og Ó helga nótt. Bergrún Anna Birkisdóttir söng eins og engill við lagið Evening Rice. Andrés Pálmason og Hermundur Hannesson tóku svo dúett við lagið Litli trommuleikarinn við mikinn fögnuð áhorfenda.

Við erum einnig rík af hæfileikaríkum hljóðfæraleikurum í kórnum og þau sem spiluðu á tónleikunum voru: Ástráður Unnar á píanó, Anna Sigríður og Ronja á fiðlu, Margrét María á selló og Fanndís á þverflautu.

Ekki má gleyma að þakka henni Eyrúnu Jónasdóttur kórstjóra fyrir vel unnin störf en eins og flestir vita er mikil vinna á bak við slíka tónleika sem viðstaddir fengu svo sannarlega að njóta góðs af.

Við látum myndir af tónleikunum og undirbúningi fylgja hér með.

Einnig er vert að benda á fb-síðu ML þar sem má sjá og heyra kórinn syngja.

Jólakveðjur!

Karen Dögg, verkefnastýra kórs ML.