JolatonleikarKór Menntaskólans að Laugarvatni hélt tvenna jólatónleika í síðustu viku í Skálholtskirkju. Í stuttu máli þá stóðu nemendur sig frábærlega! Kirkjan var stútfull bæði kvöldin og fögnuðu tónleikagestir með dynjandi lófaklappi. Stjórnandi kórsins er sem fyrr Eyrún Jónasdóttir og hún á hrós skilið fyrir að ná glimrandi samhljómi meðal nemenda. 

Í kórnum eru nú 107 nemendur, þar á meðal er fjöldi tónlistarfólks. Af þeim sáu sex þeirra um hljóðfæraleik á tónleikunum. Það voru Anna Sigríður Jónsdóttir, Ástráður Unnar Sigurðsson, Eva María Ragnarsdóttir, Sölvi Rúnar Þórarinsson, Þórarinn Guðni Helgason og Þórný Vaka Þorleifsdóttir. Ég kann þeim þakkir fyrir tónlistina.

Bergrún Anna Birkisdóttir, nemandi í 1N, söng einsöng í laginu Evening Rise, sem er bandarískt þjóðlag. Sá flutningur var einstaklega fallegur, og fékk sú sem þetta ritar gæsahúð af hrifningu! Á efnisskrá voru fjölmörg jólalög, gömul og ný, s.s. Dansaðu vindur, Klukknanna köll og Heilagi Drottinn himnum á, en einnig hefðbundnari kóralög eins og Úr útsæ rísa Íslands fjöll. Öll verk voru að sjálfsögðu sungin án nótna.

Allt í allt þá gengu báðir tónleikar eins og í sögu. Ég þakka aðstandendum Skálholtskirkju fyrir liðlegheitin og Pálma og Erlu fyrir að ganga í öll störf, alltaf! Eyrún fær loks sérstakar þakkir fyrir eljusemi og metnað í garð kórsins.

Síðast en ekki síst, takk fyrir komuna kæru tónleikagestir! Endilega skoðið skemmtilegar myndir, sem Ívar Sæland, kennari við skólann tók.

Aðalbjörg Bragadóttir 

Verkefnastjóri kórs ML