Kanó á LaugarvatniÞriðjudaginn 14. október fóru tveir hópar nemenda á fyrsta ári í útivist 172 í kanóferð frá Laugarvatni um Hólaá yfir í Apavatn. Helga Kristín kennari og Pálmi húsvörður héldu utan um hópinn og lögðu þeim lífsreglurnar áður en róið var frá landi. Fremur kalt var í veðri þegar fyrri hópurinn lagði af stað, um 6 gráðu frost en logn og dulúðlegt mistrið fylgdi hópnum frá bakkanum. Spegilslétt vatnið gerði róðurinn afslappaðan og sigldu nemendur í gegnum hemið og hraglbundið vatnið á leið sinni að Hólaá. Í Hólaá mátti sjá endur og álftir sem fylgdu bátunum eftir á sakleysislegu sundi. Ferðin heppnaðist sérstaklega vel og enduðu nemendur sáttir í hádegismat í mötuneyti ML.

Eftir hádegi fór aðeins að hvessa og ljóst að seinni ferð dagsins yrði ekki jafn afslöppuð og róleg og sú fyrri. Nemendur voru nokkuð vel búnir og tilbúnir í róður dagsins. Svolítill öldugangur var á vatninu en truflaði það nemendur lítið í fyrstu þar sem þeir kepptust við að róa sína leið. Fljótlega fengu tveir nemendur þó að kynnast Laugarvatni töluvert nánar þegar þeir veltu bát sínum skammt frá næsta bakka. Pálmi stýrimaður og húsvörður aðstoðaði þá við að koma sér til lands á meðan Helga kennari smalaði restinni af nemendunum í land. Eftir örstuttan fund í landi var tekin sú ákvörðun að róa heim enda kalt og ómögulegt að taka óþarfa áhættur með óvana nemendur. Ferðin verður því endurtekin við fyrsta tækifæri svo seinni hópurinn fái að njóta náttúrunnar í nágrenni Laugarvatns.

Með kveðju, Helga Kristín Sæbjörnsdóttir kennari útivistar 172.

nokkrar myndir

Video af ferðinni