Þessa dagana ferðast leikhópur ML-inga um Suðurland og í höfuðborgina með Konung ljónanna, sem er leikgerð á hinni þekktu sögu af ljónsunganum Simba, sem fæðist inn í hættulegan heim þar sem hann upplifir sorg og gleði, ásamt ýmsum háska. Leikstjóri er Guðjón Sigvaldason og Inger Erla Thomsen er honum til aðstoðar.
Hér er á ferð afar skemmtileg sýning sem höfðar bæði til barna og fullorðinna og ástæða til að hvetja fólk til að drífa sig á, í það minnsta eina þeirra sýninga sem eru framundan. Sýningartímarnir eru þessir:
Þri. 28. mars kl. 20:00 í Þingborg
Mið. 29. mars kl. 20:00 í Félagsheilimi Seltjarnarness
Fös. 31. mars kl. 20:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Lau. 1. apríl kl. 16:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Sun. 2. apríl kl. 19:00 í Leikskálum, Vík
Leiksýningin er hluti af fjölbreyttum viðburðum að undanförnu. Lotan hófst á Dagamun 15. og 16. mars, föstudaginn 17. mars sprellaði fólkið í Dollanum og um kvöldið var blásið til afar glæsilegrar árshátíðar í Félagsheimilinu á Flúðum. Konungur ljónanna var síðan frumsýndur í Félagsheimilinu Aratungu viku síðar, þann 24. Eftir tvær sýningar til viðbótar í Aratungu er nú hafin leikferð, sem fyrr segir.
Þegar sýningum á ljónakónginum lýkur um næst helgi, reiknum við með að við taki lokasennan í náminu, en um það á þetta víst allt að snúast. Það styttist að vísu í páskaleyfi og aðeins 3 heilar kennsluvikur og tvær skertar eftir af skólaárinu. Hvatning til dáða því vel við hæfi.
Það má finna myndir frá sýningunni og einnig nokkrar myndir frá Dagamun og Dolla á myndasíðunni.
pms