Það er líklega Íslandsmet, allavega miðað við höfðatöluna margnefndu að um helmingur allra nemenda í einhverjum framhaldsskóla sé í kór. Það er allavega reyndin hér í ML og því telur kórinn um 70 manns. Við erum afar stolt af kórnum okkar enda hefur hann verið að gera virkilega góða hluti og ekki horfur á neinum breytingum þar. Æfingar fara fram einu sinni í viku í sal Héraðsskólans en gott samstarf er milli Menntaskólans og rekstraraðila þar á bæ. Það er góður andi í kórnum og mikil breidd í lagavali en þar má bæði finna popplög sem perlur gömlu meistaranna. Stjórnandi kórsins er sem fyrr Eyrún Jónasdóttir frá Kálfholti, afar drífandi og ákveðin sem kemur sér vel þegar halda þarf fullri athygli á löngum æfingum.
Á hverri önn er farið í kórbúðir og að þessu sinni var farið frá ML á föstudaginn eftir kennslu og ekið sem leið lá í Þykkvabæinn. Þar er afar fínt íþróttahús með flottu eldhúsi og ágætri aðstöðu í alla staði. Sungið var fram að kvöldmat en þá fengu krakkarnir pylsuveislu sem var gerð góð skil. Að henni lokinni fékk hver rödd um 1 klst. til að útfæra skemmtiatriði sem átti að koma með á kvöldvöku. Allar raddir skiluðu því vel, frábært að sjá hvernig þau unnu saman og stóðu að lokum uppi með hressileg atriði sem voru bæði vel flutt og mikið hlegið. Það er engin spurning að mikið hópefli er fólgið í svona ferðum. Þær skila því bæði félagslegum áhrifum auk þess sem allir kórar þekkja það af eigin raun að svona æfingahelgar skila oft meiru en margar stuttar. Á laugardaginn var svo morgunmatur upp úr kl. 09.00 og allir komnir í sönggírinn kl. 10.00. Brauð og álegg ásamt skyri ofl. frá Sveini bryta var á hlaðborði í hádeginu og um kl. 14.00 var gengið í að taka til og ganga frá. Fyrir þennan stóra og samhenta hóp var það ekki lengi gert svo við ókum heim á leið eftir það og vorum komin heim í heiðardalinn um kaffileytið. Við vorum að venju á rútu frá Guðmundi Tyrfingssyni sem Pálmi húsbóndi keyrði.
Framundan er skemmtikvöld hjá kórnum en það mun verða auglýst betur síðar, vonast er til að sem flestir sjái sér fært að koma og hlusta á þau þá en kvöldið er hugsað sem fjáröflun fyrir Danmerkurferð þeirra í vor.
PH/EJ