Um það bil þriðjungur nemenda skólans er nú að hefja fyrsta starfsár nýja ML kórsins undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Hér er um að ræða 55 krakka af báðum kynjum. Það er ekki laust við að við ML-ingar séum harla stoltir af því hve glæsilega kórstarfið fer af stað. Það mun hafa verið 1991 sem ML kórinn hinn eldri var stofnaður og þá undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Í tilefni af því að nú eru 20 ár frá stofnun kórsins er búið að stofna samskiptasíðu kórfélaga og ekki verður betur skilið af umræðum þar, en að fullur hugur sé í fólki að koma saman og efna jafnvel til tónleika nú á haustmánuðum. Við væntum góðs af þeim menningarblæ sem nýr skólakór hefur í för með sér og vonum auðvitað að gamli kórinn rífji upp gamla takta.
pms