KorbudirKór Menntaskólans að Laugarvatni lagði land undir fót helgina 6. og 7. október. Ferðin lá til Víkur í Mýrdal þar sem kórinn kom fram á tónleikum sem haldnir voru á Regnbogahátíðinni, lista- og menningarhátíð Mýrdælinga. Við lögðum af stað frá ML með 110 nemendur, kórpalla, hljóðfæri og kjúklingasalatið hans Svenna kokks! Föstudagurinn var skemmtilegur, við fórum beint í íþróttahúsið í Vík og æfðum fyrir tónleikana, komum okkur þá fyrir í félagsheimilinu Leikskálum, borðuðum, fórum í betri gallann og um kvöldið flutti kórinn um 45 mínútna prógram fyrir fullu húsi. Öll verk voru flutt án nótna sem verður að teljast frábær árangur eftir æfingar í aðeins einn og hálfan mánuð!

Við erum svo heppin að eiga í okkar röðum hæfileikaríkt tónlistarfólk og nokkrir nemendur kórsins komu einnig fram sem hljóðfæraleikarar. Það voru þeir Ástráður Unnar Sigurðsson á píanó, Halldór Friðrik Unnsteinsson á trommur, Hörður Freyr Þórarinsson á bassa, Sölvi Rúnar Þórarinsson á gítar og Þórarinn Guðni Helgason á bassa. Þeir stóðu sig, rétt eins og aðrir kórmeðlimir, með stakri prýði.

Eftir tónleikana var haldin kvöldvaka í Leikskálum þar sem hver rödd (sópran, alt, tenór og bassi) tróð upp með skemmtiatriði. Þessu stýrði Anna Elísabet Stark, formaður kórsins. Úr varð hin besta skemmtun, í framhaldinu voru dregin upp sönghefti og sungið og trallað langt fram á nótt… eða þar til Pálmi og Erla sögðu góða nótt!

Á laugardeginum buðu kvenfélagskonur okkur í morgunmat í grunnskólanum í Vík. Við þökkum þeim kærlega fyrir gestrisnina! Í framhaldinu hófust raddæfingar og ný lög voru æfð, þar á meðal jólalög sem sungin verða á jólatónleikum kórs ML. Þeir verða tvennir þetta árið, 30. nóvember og 1. desember, í Skálholtskirkju. 

Allt í allt heppnaðist helgin ljómandi vel! Má þar þakka Önnu Birnu Björnsdóttur verkefnastjóra Regnbogahátíðarinnar en hún stýrði af röggsemi og var okkur ML-ingum ætíð innan handar. Hún er móðir tveggja kórmeðlima, þeirra Guðrúnar Lilju og Sigurjónu. Einnig fá þakkir aðrir sem lögðu hönd á plóg, en það er mikið verk að fara með stóran hóp í helgarferð. Frá ML fóru Eyrún Jónasdóttir kórstjóri, Pálmi Hilmarsson húsbóndi og Erla Þorsteinsdóttir húsfreyja auk undirritaðar. 

Myndir segja meira en mörg orð, svipmyndir úr ferðinni má sjá hér. Þar má t.d. sjá að þétt var legið í Leikskálum en það jók aðeins á ástina!

Ég þakka ML-ingum fyrir faglega og flotta ferð!

Aðalbjörg Bragadóttir

verkefnastjóri kórs ML