Síðastliðna helgi (11. – 13. október)  fór kórinn okkar dásamlegi, sem samanstendur af um 100 nemendum, í kórbúðir á Varmalandi í Borgarfirði þar sem stífar æfingar voru haldnar fyrir jólatónleikana ásamt því að koma fram í Reykholtskirkju á laugardeginum.

Við lærðum þá dýrmætu lexíu að taka ekki vatninu okkar sem sjálfsögðum hlut en við þurftum að sjóða allt vatn þar sem grunur var um bakteríusýkingu í vatnsbólinu á staðnum. Það var því ekki mikið um kalt vatn í ferðinni en raddböndin héldust mjúk fyrir vikið sem kom sér þó vel fyrir allan sönginn.

Fyrsta kvöldið áttum við notalega stund saman og horfðum á myndina: Rocketman sem er ævisaga Elton John. Kórmeðlimir skipulögðu svo virkilega skemmtilega kvöldvöku á laugardeginum þar sem hver rödd og hver bekkur var með atriði og leiki. Þau fóru svo einnig til að mynda í sund, spiluðu, borðuðu góðan mat frá Grillvagninum, skoðuðu Hraunfossa og sumir nýttu meira segja tímann á kvöldin í að læra.

Það er óhætt að segja að við getum verið stolt af framkomu þeirra og umgengni í allri ferðinni. Það er ekki sjálfsagt að fara með svo stóran hóp í langa ferð og ekkert nema skemmtilegheitin.

Við enduðum ferðina á vel heppnaðri keiluferð þótt ekki allir séu sammála um úrslitin. Sumir stóðu sig betur í pizzaáti og er það hið besta mál.

Þetta var virkilega skemmtileg ferð sem hristi hópinn enn betur saman. Hérna eru margar myndir frá æfingahelginni. 

 Karen Dögg verkefna- og klappstýra kórsins