Það var bæði popp og kók í bíóferð nemenda í valáfanganum Kvikmyndir og saga síðasta þriðjudag. Tuttugu nemendur ásamt kennara lögðu þá land undir fót og heimsóttu Kvikmyndasafn Íslands í Hafnarfirði, sem geymir mikið safn innlendra og erlendra kvikmynda og auk þess mikið af tækjum og gögnum um kvikmyndagerð og sjónvarpsrekstur á Íslandi. Eftir stutta leiðsögn um safnið og gagnageymslur þess var hópnum sýnd gömul íslensk sjónvarpsmynd frá því um 1970 sem fjallaði um ýmsar hættur borgarlífsins. Eftir þessa fróðlegu heimsókn var ekið til Reykjavíkur og staldrað við í Lækjargötu þar sem veitingahúsið Hard Rock Cafe útbjó fína máltíð að hætti hússins.

Þá var komið að hápunkti ferðarinnar, að sækja heim Bíó Paradís við Hverfisgötu. Þar sáum við myndina Sníkjudýrin eða Parasite, sem gerð er af suður-kóeaska leikstjóranum Bong Joon Ho. Myndin var valin besta kvikmynd síðasta árs á Óskarsmyndahátíðinni í Bandaríkjunum og sannarleg stóð hún undir væntingum. Auk þess fékk Bong Óskarinn fyrir leikstjórn og fyrir besta handritið ásamt félaga sínum Jun Won Han. Eftir sýningu var kærkomið að halda heim að Laugarvatni á ný.

Við þökkum Þóru og Gunnþóru á Kvikmyndasafninu fyrir móttökurnar og Pálma Hilmarssyni bílstjóra fyrir vel heppnaða ferð.

Sigurður Pétursson sögukennari