evropaungafolksinsÍ morgun heimsótti Hjörtur Ágústsson, fulltrúi frá Evrópu unga fólksins nemendur 1. bekkjar og 4. bekkjar og kynnti þá möguleika sem standa nemendum til boða innan áætlunarinnar.

Evrópa unga fólksins er íslenska heitið á Ungmennaáætlun Evrópusambandsins, Youth in Action, og er samstarfsverkefni ESB, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og UMFÍ. Áætlunin veitir styrki fyrir ungt fólk á aldrinum 13-30 ára. Á hverju ári veitir Evrópa unga fólksins á Íslandi um 1.000.000€ í styrki til góðra verkefna sem skipulögð eru af ungu fólki og/eða fyrir ungt fólk. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Evrópu unga fólksins www.euf.is.

Einhverjir nemenda í 1. bekk hafa þegar tekið þátt í verkefnum innan áætlunarinnar og þá t.d. gegnum félagsmiðstöðvar, þannig að þeir gátu sagt frá reynslu sinni. Nemendur 4. bekkjar höfðu helst áhuga á ýmsum sjálfboðaliðastörfum, eins og til að mynda að passa skjaldbökur í allt að eitt ár á grískri eyju – það sást jafnvel glampi í augum.

-gg/pms

Myndir í myndasafni