Nemendur 4. bekkjar í Menntaskólanum að Laugarvatni brugðu undir sig betri fæti miðvikudaginn 2. febrúar og lögðu leið sína til höfuðborgarinnar til að kynna sér háskólanám. Ferð þessi er liður í lífsleikniáfanga þar sem fjallað er um náms- og starfsval. Alls fóru 34 nemendur í ferðina ásamt Grímu námsráðgjafa og Pálma húsverði og heimavistarstjóra sem keyrði rútuna. Heimsóttir voru þrír háskólar, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands. Í skólunum þremur var vel tekið á móti ML-ingum.
Kynningarfulltrúar og háskólanemar tóku á móti hópnum og kynntu skólana á margvíslegan og skemmtilegan hátt. Í leiklistardeildinni í LHÍ fór t.d. leiklistarnemi með texta fyrir hópinn, í HR kynnti útskrifaður ML-ingur, Kolfinna Von, nám í sálfræði við HR og í HÍ leiddi Pétur Markan okkur um hjarta háskólans. Kynningarnar þrjár tóku góðan tíma og nemendur því mjög ánægðir með veitingar sem boðið var upp á í háskólunum.
Hópnum kom saman um að ferðin til Reykjavíkur hafi verið mjög ánægjuleg og fræðandi. Kynningar með þessum hætti auka tvímælalaust á víðsýni nemenda og hjálpa þeim að taka ákvarðanir um framtíðina. Ég vil koma á framfæri þakklæti fyrir hönd hópsins til háskólanna þriggja fyrir frábærar móttökur.
Gríma námsráðgjafi.