Heimsokn isl01

Þær voru ferskar og frumlegar, listakonurnar tvær, sem komu í heimsókn í ML mánudaginn síðasta. Skoski rithöfundurinn Kirsty Logan og ástralska leikbrúðulistakonan Gabrielle Paananen hafa dvalið síðasta mánuðinn í Gullkistunni sem er menningarmiðstöð hér á Laugarvatni. Þær Kirsty og Gab litu við í íslensku/ensku tíma og sögðu frá lífi sínu og starfi, sem er heldur betur ólíkt lífi okkar ML-inga!

Gabrielle, eða Gab, starfar sem leikbrúðulistakona í Sydney. Hún sýndi ljósmyndir og teikningar af risavöxnum skepnum sem Gab vinnur við að hanna. Þetta eru ekki litlar strengjabrúður heldur margra hæða risaeðlur og furðuskepnur! Nemendum brá í brún þegar Gab tilkynnti að hún er aðeins 19 ára gömul en nú þegar hefur hún tekið þátt í fjölmörgum verkefnum og ferðast um heiminn. Sjá nánar hér á heimasíðu leikbrúðufyrirtækisins: http://www.erth.com.au/

Kirsty Logan er ungur rithöfundur frá Glasgow sem hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir smásögur sínar. Hún hefur gefið út tvö smásagnasöfn og eina skáldsögu, the Gracekeepers, sem hún gaf bókasafni ML. Kirsty var einlæg og raunveruleg þegar hún sagði frá sköpunarferli sínu og las fyrir nemendur smásögu eftir sjálfa sig, The Rental Heart. Sagan er áleitin framúrstefnuleg ástarsaga og lýsandi fyrir skrif Kirsty sem einkennast af samspili raunsæis og fantasíu. Að lokum virkjaði hinn rauðhærði Skoti nemendur ML í skapandi skrif og hugarflug þar sem hún hvatti okkur til að hugsa í öfgum. Í enda tímans fóru margir nemendur út með glaðvakandi huga, ekki síst sú sem þetta ritar! Meira um Kirsty hér: http://www.kirstylogan.com/

Heimsóknin var samvinnuverkefni milli Gullkistunnar, íslenskudeildar og enskudeildar og vonandi verður meira um samstarf á komandi önnum.

Aðalbjörg Bragadóttir, fagstjóri í íslensku