Skirn2015 - fulltrúar 4. bekkjar gera sig kláraÞað er nú kannski ekki hægt að segja að það sé venja, en annað slagið höfum við hér í ML fengið hingað til okkar menn frá Lögreglunni á Selfossi. Með þeim hefur komið hundur og stundum fleiri en einn og þeim verið sleppt á heimavistir og látnir leita að efnum sem þar eiga ekki að vera. Við höfum kosið að líta svo á að þetta sé gert í forvarnarskyni, ekki höfum við sérstaklega átt von á að neitt fyndist enda kemur það oftast á daginn. Leitir af þessu tagi hafa verið nokkuð umdeildar í skólum landsins en hér í ML höfum við fundið fyrir miklum stuðningi frá hálfu foreldra og nemenda við þessu. Á fundi með foreldrum nýnema á haustin er sagt frá því að þetta muni hugsanlega vera gert á einhverjum tímapunkti vetrarins svo það komi ekki á óvart í þeim skilningi þegar það svo er gert. Sama er með nýnema, þeim er tilkynnt að þetta muni hugsanlega vera gert svo þetta kemur ekki á óvart þegar látið er til skarar skríða.

Í gærmorgun fór ein slík leit fram á heimavistum. Sem betur fer fundust engin efni þó hér væru tveir þrautreyndir hundar sem skönnuðu alla ganga. Annar þeirra er að jafnaði á Litla Hrauni en hinn fylgir embættinu á Selfossi. Við teljum okkur því vel sett hér á þessu svæði að hafa aðgang að jafn góðum gripum þegar á þarf að halda og kunnum lögreglunni bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma í okkur. Nemendum var tilkynnt um leitina á húsþingi í fyrstu frímínútum og tóku allir því vel og kunnum við nemendum bestu þakkir fyrir þolinmæðina og skilninginn.

Pálmi Hilmarsson.

Forvarnarfulltrúi ML.