Mánudaginn 2. nóvember s.l fór hópur starfsfólks á málþing HEF (Heilsueflandi framhaldsskóli) á vegum Landlæknisembættisins í Reykjavík. Á málþingininu gafst fulltrúum framhaldsskólanna tækifæri til þess að kynna verkefni sem unnið er að innan þeirra og einnig hugmyndir sem finna má í mismunandi heilsueflandi stefnum þeirra. Það kom mjög margt áhugavert í ljós en það sem stóð einna helst upp úr er, hversu samtaka skólarnir eru að verða varðandi aukna núvitund og geðrækt, áfengis- og tóbaksforvarnir ásamt aukinni hreyfingu og útivist.
Gulleplið var afhent en að þessu sinni var það Borgarholtsskóli sem hreppti hnossið. Við óskumþeim innilega til hamingju með árangurinn og það verður spennandi að sjá hvernig framhaldið verður hjá þeim. Við komum til með að halda áfram að leggja okkur fram við að efla og bæta okkar heilsustefnu og sækjum um að nýju þar til eplið verður okkar.
Það voru flutt tvö erindi á vegum Menntaskólans að Laugarvatni. Freyja Rós Haraldsdóttir kennari við skólann kynnti nýútgefið lokaverkefni sitt til mastersgráðu um jafnrétti í félagslífi nemenda í ML. Þá kynnti Pálmi Hilmarsson svokallaðan „skemmdasjóð“. Halldór Páll Halldórsson settist svo í panel og svaraði krefjandi spurningum um framtíð skólann, stefnur og strauma, en umræður voru heitar í ljósi breyttra aðstæðna í skólakerfinu.
Það er heilmikið framundan í HEF verkefni Menntaskólans að Laugarvatni. Í síðasta mánuði var keypt hjartastuðtæki sem hefur verið komið fyrir á á stóra gangi í skólanum. Nemendur munu fá kennslu á tækið á næstu dögum. Framundan er skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk og nemendur, sykurskápur verður settur upp eftir jólin og stefnt er að því að opna hugleiðsluherbergi áður en námsmatstími hefst í desember.
Nú fer þessu misseri senn að ljúka og margt búið að framkvæma í haust í uppbyggjandi og heilsueflandi þáttum. Við erum þó rétt að byrja og heilmikið eftir bæði í skipulagi og framkvæmdum til þess að efla þátttöku okkar í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli.
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnisstjóri HEF í Menntaskólanum að Laugarvatni.