Nemendur á fyrsta ári fóru á Málþing fyrir kynjafræðinema í framhaldsskólum fimmtudaginn 7. nóvember frá 14:00 til 15:30. Málþingið var haldið í Skriðu, fyrirlestrasal Kennaraháskólans í Stakkahlíð. Námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands og kynjafræðikennarar í framhaldsskólum buðu upp á þrjú erindi sem tengdust kynheilbrigði. Ferðin var liður í kynjafræðiáfanganum sem allir nemendur taka á fyrsta ári í ML.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastjóri Jafnréttisskólans og Þórður Kristinsson kennari í Kvennó héldu erindi um kynlífsmenningu ungmenna. Klám og klámvæðing kom þar mikið við sögu.
Hinsegin kynheilbrigði, allt sem við hefðum viljað vita, var yfirskriftin á framsögu Bjarndísar Helgu Tómasdóttur ritari Samtakanna ’78 og Unnsteins Jóhannssonar varaformanns Samtakanna ’78. Þau voru á einlægum nótum og deildu sinni reynslu.
Að lokum talaði Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir verkefnastýra hjá Stígamótum um mörk óheilbrigðra og heilbrigðra samskipta meðal ungs fólks. Það tengdist verkefninu Sjúk ást og vefsíðunni sem því fylgir.

Afskaplega mikilvæg umfjöllunarefni sem þarna voru á dagskrá og nemendur lánsöm að fá fræðslu frá þessum góðu fyrirlesurum.

Freyja Rós Haraldsdóttir, kynjafræðikennari