trodsnjorÞað var slíkt álagið á vef skólans í gær, að hann datt nánast úr á tímabili. Ástæðuna má rekja til lítillar fréttar í tengslum við veðrið hér á Laugarvatni í gærmorgun og afleiðingar þess. Með fréttinni var mynd sem var tekin þegar íbúarnir í Tröð ætluðu að gá til veðurs, en sáu augljóslega ekki til þess, þar sem skafl hafði lagst þétt upp að útidyrunum. 

Fréttin fór í loftið og þá tók dreifikerfið við. Einhver einstaklingur smellir á LIKE hnappinn og þar með birtist tilvísun í vef skólans á fasbókarsíðu hans. Með þessu fór snjóboltinn að rúlla og í gærkvöld voru tæplega 800 manns búnir að smella á LIKE hnappinn, og þegar þetta er ritað hafa ríflega 18000 lesið fréttina.  Þetta var nú bara toppurinn á ísjakanum, því nú er svo komið að Ægir Freyr er kominn í mikið uppáhald hjá grískum meyjum, reyndar meyjum vítt og breitt um veröld alla. Á þessari síðu lenti myndin og þar hefur ótölulegur fjöldi fólks tjáð sig um  og lýst ánægju sinni með: piltinn sem slíkan, fatnaðinn sem hann er í, og loks snjóinn sem fyllir út í dyragættina, sem margir telja reyndar að sé gabb. 

Vefstjóri skellti sér út blíðviðrið sem nú er á Laugarvatni og myndaði staðinn þar sem hin heimsfræga mynd er tekin, utanfrá. Það hafa nú verið grafin göng að dyrunum. Það var hinsvegar aldrei spurning um að þeir kæmust út, félagarnir.

pms

Fleiri myndir frá Laugarvatni í dag, eru á myndasíðunni.