Nemendur 4F í skæptíma í FÉL403Tími þeirra Haraldar Matthíassonar, Ólafs Briem og fjölda annarra kennara sem settu mark sitt á sögu skólans hverfur æ lengra inn í fortíðina með hverju ári sem líður og með hverri nýrri kennsluaðferð eða kennslutækni sem nútíminn á hverjum tíma færir okkur.

Í gær urðu nokkur þáttaskil með því að Haukur Örn Davíðsson, félagsvísindakennari sat „fyrir sunnan“ og kenndi lokaáfanga í félagsfræði hjá 4. bekk hér „fyrir austan“. Haukur kennir staðkennslu hjá okkur 3 daga í viku, en að öðru leyti fer kennsla hans fram með ofangreindum hætti. Þarna fara nemendur hans í tíma eins og vera ber, kveikja á viðeigandi tækjum, sem birta þeim kennarann, í stærri mynd en ef hann væri sjálfur viðstaddur. Tíminn gengur síðan fyrir sig eins og hann er settur upp og að lokum er slökkt á tækjunum og lífið heldur áfram. 

Hér er auðvitað ekki á ferðinni einhver ný tækni, heldur er um að ræða fyrsta skipti sem þessari aðferð er beitt við skólann.

Í framhaldi af þessu má sannarlega ímynda sér endalausa möguleika af þessu tagi.  Það verður að fara varlega í að spá um hvað framtíðin ber í skauti sér í þessu efni, að minnsta kosti má fullyrða, að þeir Haraldur og Ólafur hefðu ekki haft hugmyndaflug til að sjá þetta fyrir sér.

pms

3 myndir