Nemendur 2. bekkjar í Menntaskólanum að Laugarvatni brugðu undir sig betri fæti mánudaginn 2. mars og lögðu leið sína til höfuðborgarinnar til að kynna sér háskólanám í HÍ og HR. Þá heimsóttu nemendur einnig Listasafn Reykjavíkur og skoðuðu mjög áhugaverða yfirlitssýningu á verkum bandaríska hugmyndalistamannsins Sol LeWitt og sýninguna Sæborg eftir Erró. Rúsínan í pylsuendanum var svo heimsókn inn í litríkan og loðinn heim; Chromo Sapiens innsetningu Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter. Nemenndur kunnu vel að meta þessa sýningu sem jafnframt var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019.
Á öllum stöðum fengum við mjög góðar móttökur Ferð þessi er liður í lífsleikniáfanga þar sem fjallað er um náms- og starfsval. Kynningar með þessum hætti auka tvímælalaust á víðsýni nemenda og hjálpa þeim að taka ákvarðanir um framtíðina. Alls voru nemendur 35 talsins ásamt Grímu námsráðgjafa og Pálma bílstjóra með meiru.
Hópnum kom saman um að ferðin til Reykjavíkur hafi verið bæði fræðandi og skemmtileg. Myndirnar tala sínu máli.
Gríma Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi