Menningarferð 4ða bekkjar og 3ja FAllir nemendur 4. bekkjar ML ásamt 3F fóru í menningarferð til Reykjavíkur fimmtudaginn 7. nóvember. Lagt var af stað frá skólanum kl. 14.00 og komið aftur heim um miðnætti. Leiðin lá fyrst í Gljúfrastein að skoða hús skáldsins og innbyrða anda hans. Á meðan skaust hluti hópsins á keramikvinnustofu Þóru Sigurþórsdóttur að Hvirfli í Mosfellssveit. Að því loknu fóru allir saman á Kjarvalsstaði að skoða sýningu á verkum meistara Kjarvals og tímamótaljósmyndir Rússans Andrei Rodchenko (1891-1956). Þá lá leiðin í Keiluhöllina þar sem keilur voru felldar í þúsundatali og matur etinn. Ferðinni lauk í Þjóðleikhúsinu að sjá hina verðlaunuðu leiksýningu Engla alheimsins í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar sem byggir á samnefndri skáldsögu Einars Más Guðmundssonar. Ferðin gekk eins og best verður á kosið undir stjórn Pálma Hilmarssonar og Jóns Özurar Snorrasonar með dagskrá og nemendur í hæsta gæðaflokki.

-jözur