graenfaniMenntaskólinn að Laugarvatni hefur hlotið Grænfánann. Móttaka fánans verður í haust, en afhending fánans verður afar ánægjuleg enda hefur umhverfisnefnd unnið höfðum höndum við að efla sjálfbærni og umhverfisvitund ML-inga. ML varð „Skóli á grænni grein“ árið 2007 og hefur umhverfisnefnd unnið að því að uppfylla skilyrði til að öðlast Grænfánann undanfarin ár. Fánanum verður því flaggað með stolti.

Umhverfisnefnd skólaárið 2010-2011 skipa: Halldór Páll Halldórsson skólameistari, Pálmi Hilmarsson umsjónarmaður, Sveinn R. Jónsson matreiðslumeistari, Guðrún Einarsdóttir skólafulltrúi/ritari og Jóna Björk Jónsdóttir líffræðikennari. Fyrir hönd nemenda sitja: Andrea Hrund Bjarnadóttir 1F, Héðinn Hauksson 3N, Hlynur Guðmundsson 2N, Karl Óskar Smárason 2N og Sævar Ingi Sigurjónsson 4N.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd hefur rekið hér á landi í tæp 10 ár. Tæplega tvöhundruð skólar á öllum skólastigum um land allt taka þátt í verkefninu. Þátttökuskólar miða að því að geta flaggað alþjóðlegu viðurkenningunni Grænfánanum. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekkjum og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og starfsfólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni landvernd.is