ML hóf verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli með formlegum hætti við hátíðlega dagskrá í morgun á sal skólans. Landlæknir, Geir Gunnlaugsson, verkefnisstjórinn Héðinn Svarfdal Björnsson og Kristján Þór Magnússon starfsmaður hjá landlæknisembættinu sóttu skólann heim. Héðinn Svarfdal ræddi við nemendur og starfsmenn um verkefnið sem flestir framhaldsskólar landsins taka þátt í. Síðastliðið skólaár var undirbúningsár að verkefninu en komandi vetur einblínir ML á næringuna. Næsta vetur verður í verkefninu öðru fremur viðfangsefnið hreyfing, veturinn þar eftir geðræktin og að lokum verður fjórða og síðasta árið horft heildstætt á lífsstíl nemenda og starfsmanna. Geir landlæknir ræddi því næst um mikilvægi þessa verkefnis sem mótandi þátt í lífi ungs fólks til framtíðar. Nemendur fengu að gjöf vatnsbrúsa frá landlæknisembættinu og skólinn táknrænan fána verkefnisins. Fáninn var dreginn að húni á eina stöng fánaborgar skólans af skólaráðsfulltrúunum Ástrúnu Sæland og Lindu Dögg Snæbjörnsdóttur svo og Grímu Guðmundsdóttur náms- og starfsráðgjafa en hún hefur tekið við verkefnisstjórn verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli af Halldóri Páli skólameistara. Nemendur og starfsfólk sungu síðan að sjálfsögðu skólasönginn, Til fánans ljóð Einars Benediktssonar við lag Björgvins Guðmundssonar. Blakta nú hlið við hlið Grænfáninn og fáni verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli. Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera !
ML er Heilsueflandi framhaldsskóli !
by admin | sep 13, 2011 | Almennar fréttir